Áhrif skjánotkunar á heilsu yngri barna
Snjalltækjanotkun hjá börnum fer aðallega fram eftir leikskóla, í bílnum, í búðum og jafnvel í leikskólum, börn eru jafnvel sett fyrir framan sjónvarpið á morgnana, eftir leikskóla og er sjónvarpið mögulega líka í gangi í kvöldmatnum. Þegar öll þessi skjátímanotkun er tekinn saman þá er augljóslega hægt að sjá að ung börn eyða alltof miklum tíma fyrir framan skjá. Í könnun sem var gerð á barna og unglingageðdeild Landspítalans kom í ljós að börn og unglingar eyddu að meðaltali 5-7 klukkustundum á dag fyrir framan skjá. Einnig hefur offita aukist hér á landi til muna, ásamt svefnröskunum, notkun svefnlyfja og annarra heilsukvilla (Björn Hjálmarsson, 2017).
Þegar við skoðum hegðun út frá heilsufarsþáttum barna þá er hægt að sjá að þessir þættir haldast mikið í hendur. Þegar rætt er um heilsufarsþætti þá er verið að skoða þættina næring, svefn og hreyfing. Þessir þættir eiga það sameiginlegat að tengjast hvor öðrum og eru þeir nauðsynlegir til þess að geta viðhaldið góðri heilsu, og geta þeir haft mikil áhrif á hvorn annan. En hér að neðan verða þessir þættir skoðaðir í tengslum við skjánotkun og hvernig skjánotkun getur haft áhrif á þessa heilsufarsþætti. Erfið hegðun barna einskorðast ekki einungis af frekju eða stjórnsemi, þegar ung börn eru illa sofin, glíma við hreyfingarleysi og mikla kyrrsetu eða innbyrða slæma næringu dag eftir dag eru þau líklegri til þess að finna fyrir einshversskonar vanlíðan eins og mikilli þreytu, orkuleysi, andlegri vanlíðan, veikindum og heilsufarskvillum sem getur skilað sér í erfiðri hegðun (Emond o.fl., 2018).
Við viljum benda aftur á að greinargerð er hægt að finna inni á Skemmunni fyrir þá sem vilja fræðast meira um verkefni okkar.
Heilsufarsþættir
Svefn
Háttatími getur einnig verið ansi krefjandi fyrir ung börn sem eiga erfitt með að sofna, vilja ekki fara að sofa eða eru orðinn of þreytt og þar hjálpa snjalltækin ekki. Börn sem nota snjalltæki fyrir svefn verða fyrir miklum áhrifum blárra ljósa sem snjalltæki gefa frá sér, sem hefur áhrif á svefn og svefngæði. Mikið hefur verið talað um að skjátæki gefi frá sér blá ljós eða svokallað „blue light“ sem hefur áhrif á svefnin eins og er nefnt hér að ofan. Ljós hefur það hlutverk að segja okkur hvenær er að koma háttatími og hvenær ekki og börn læra að þegar það er dimmt úti eru þau að nálgast háttatíma og þegar það er bjart úti eða inn á heimilinu þá er vökutími. Þegar ung börn nota snjalltæki klukkutíma fyrir svefn eru þau mótækileg fyrir bláu ljósi frá snjalltækinu sem lækkar melatonin magn í líkamanum sem hefur áhrif á svefn og svefngæði þeirra (Marshall, 2022).
Skjátími er tengdur því hvernig börn og fullorðnir sofa. Aftur á móti hjá leikskólabörnum, þá tengist meiri tími í útileik og líkamlegri hreyfingu betri svefni. Það er því brýn þörf fyrir framtíðarrannsóknir, til að komast að því hvernig skjátími samtímans (t.d. spjaldtölvur og rafrænar bækur) trufla náttúrulega innri klukku líkamans sem segir okkur hvenær það er kominn tími til þess að fara sofa og vakna og trufla því dægursveifluna (Karítas Kjartansdóttir, 2020) og svefninn hjá ungum börnum. Lýðheilsustefnur og átök eru nauðsynlegar til að hjálpa foreldrum og kennurum að hvetja til jafnvægis í notkun á skjátengdri notkun og jákvæðri hreyfihegðun til að stuðla að heilbrigðum lífsstíl og þroska hjá börnum yngri en fimm ára (Dube o.fl., 2017). Eins og við er að búast kemur notkun skjátækja á kvöldin í veg fyrir að börnin fari að sofa á réttum tíma og styttir þar með svefntímann. Stuttur svefntími hefur áhrif á þyngdarstöðu með því að draga úr framleiðslu á leptíni, sem er matarlystarbælandi hormón og eykur framleiðslu ghrelíns, matarlystarörvandi hormón sem veldur því að þeir sem nota skjátæki nálægt svefntíma, einfaldlega, borði meira. Börn sem horfa á sjónvarp og nota tölvu í svefnherbergi sínu hafa umtalsvert styttri svefntíma og seinni háttatíma og jafnaldrar þeirra.
Næring
Tíminn í kringum matartíma getur verið afar erfiður fyrir yngri börn og þá sérstaklega í kringum kvöldmatartíma. Ung börn eiga það til að verða ansi þreytt eftir amstur dagsins og kannski ekkert endilega til í að setjast niður og fá sér að borða. Hegðun barna í kringum matmálstíma getur stafað af mikilli þreytu eftir daginn, lystarleysi, vilja ekki borða eða smakka það sem er í boði eða að þau eru einfaldlega ekki svöng á þessum tíma. Matmálstímar geta verið mjög mikilvægir fyrir ung börn, þar fer fram allskonar skynjun, kennsla og lærdómur. Börnin læra að skynja bragð, lykt, áferð og útlit ásamt því að mikil málörvun fer fram hjá börnum á þessum tímum. Þegar við bætum skjátækjum inn í þessa mikilvægu tíma, missum við tengslin við allar þessar upplifanir sem geta átt sér stað. Hér að neðan erum við aðallega að skoða hvað getur haft áhrif á hegðun barna í tengslum við skjátæki og matmálstíma. Ef við skoðum matartíma í tengslum við skjátækjanotkun kemur í ljós að mörg börn nota skjátækin á meðan þau eru að borða, fyrir mat og eftir mat. Þessi hegðun getur leitt til þess að börn borði of mikið, borði meira af snarli á við snakk, kex og þess háttar eða geti ekki borðað án þess að vera í snjalltæki. Margar rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli mikillar skjátækjanotkunar og offitu barna (Rocka o.fl., 2022).
Í rannsókn Rocka o.fl (2022) voru skoðuð áhrif skjátækjanotkunar á matarvenjur og hreyfingu yngri barna. Í þeirri rannsókn kom í ljós að því meiri tíma sem börn eyddu í skjátækjum því meiri líkur voru á lélegum matarvenjum eins og skyndibita, neyslu á nammi, snakki, kexi og álíka, og þá minni neyslu á trefjaríkum mat, ávöxtum, grænmeti og fiski. Áhrifin sem lélegar matarvenjur eins og óhollur og næringarsnauður matur getur haft á líf barna geta verið frekar mikil, áhrifin geta verið orkuleysi, þreyta, pirringur og ofát. Niðurstöður úr annarri rannsókn sýna einnig að mikil skjátækjanotkun hefur neikvæð áhrif á matarvenjur, þar með aukin neysla á skyndibita og ruslfæði. Í þessari rannsókn kemur einnig fram að skjánotkun, þá sérstaklega sjónvarpsáhorf eykur neyslu matar sem borðað er yfir daginn sem leiðir til offitu og ofþyngdar (Ramírez-Coronel o.fl., 2023).
Hreyfing
Hreyfing spilar stórt hlutverk í því að þroskast og dafna, hreyfing er einn þeirra þátta sem stuðlar að góðu og heilbrigðu lífi og er mikilvægt að allir, ungir sem aldnir stundi eitthverja hreyfingu allavegana einu sinni á dag. Hreyfingarleysi og kyrrseta er orðið að stóru vandamáli hér á landi og þar spilar skjánotkun stóran part af vandamálinu. Þegar börn nota skjátæki eru þau ýmist sitjandi eða liggjandi sem veldur mikilli kyrrsetu og lítilli hreyfingu. Með aukinni snjalltækjanotkun og hraðri þróun eykst þessi kyrrseta meðal fólks sem getur valdið þyngdaraukningu, hreyfingarleysi, offitu og verri líðan.
Hreyfingarleysi barna stjórnast ekki einungis af börnunum heldur foreldrum líka, það er hlutverk foreldra að hvetja börnin sín til þess að sækja tómstundir og íþróttir og einnig hlutverk foreldra að hvetja börnin til þess að fara út að leika og stunda hreyfingu. Þegar foreldrar eru ekki að hvetja börnin sín til þess að stunda eitthversskonar hreyfingu þá er líklegra að börnin verði fyrir miklu hreyfingarleysi og eyði tíma sínum frekar kyrrsett í skjátækjum.
Í rannsókn Hesketh o.fl. (2012) var verið að skoða hvernig skjánotkun hefur áhrif á líkamlega hreyfingu barna, rannsóknin var gerð með foreldrum ungbarna og foreldrum leikskólabarna og þar kom í ljós að foreldrar ungra barna trúðu því að ung börn væru með náttúrulega þörf fyrir líkamlega hreyfingu og því þyrftu foreldrar ekki að hvetja þau til þess að hreyfa sig og töldu foreldrar að ekki væri þörf á að hvetja börnin til þess að fara út að leika. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ung börn væru ekki að fá nóg af líkamlegri hreyfingu þrátt fyrir það sem foreldrar trúðu sem var að börnin hreyfi sig sjálf og það þurfi ekki að hvetja þau. Skjánotkun barna einskorðast við reglur foreldra og kom það einnig fram í greininni að foreldrar leikskólabarna áttu það til að leyfa of mikla skjánotkun vegna þess að foreldrar högnuðust á því heima fyrir og notuðust þá við skjátækið sem „barnapíu“ sem skilaði sér í minni hreyfingu barnanna og hærri líkum á að börnin glími við offitu í framtíðinni (Hesketh o.fl., 2012). Það þarf líka að muna að skjátími barna þarf ekki að vera hreyfilaus tími. Notkun stafrænna miðla getur hvatt til og bætt við líkamlegri hreyfingu og þá sérstaklega eftir þriggja ára aldur því þá byrja börnin að bregðast við því sem þau eru að horfa á ef það er skemmtilegt, hannað fyrir þau og hvetur þau til þess að gera eins eða til þess taka þátt (Canadian Paediatric Society, 2017).
Ofbeldishegðun og tilfinningastjórn
Þessi vaxandi skjánotkun hefur valdið áhyggjum af því að börn hafi minni tækifæri til að vera augliti til auglitis og skjávirkni verið í tengslum við minnkandi félagslega þátttöku, verri mannleg samskipti og lakari félagslega hæfni. Þó að það að horfa á hágæða fræðsluefni á leikskólaaldri geti bætt fræðilega færni barna og tungumálaárangur, þá er sjónvarpsáhorf (meira en 1 klst./dag) fyrir tveggja ára aldur sagt til að auka hættu á seinkun á vitrænum þroska og tungumálakunnáttu. Það að eyða tíma í að horfa á skjá frekar en foreldra eða aðra getur þannig haft áhrif á þann tíma sem börn geta eytt í að æfa sig í að þekkja tilfinningar hjá öðrum, upplifa tilfinningar í samskiptum við aðra og talað við um eðli, orsakir og afleiðingar og mismunandi tilfinningar foreldra sinna (Skalická o.fl., 2019). Ef snjalltæki er notað sem "barnapía", verðlaun fyrir lítilháttar verkefni eða til þess að róa barn, er barn í hættu á að þróa með sér slaka tilfinningastjórn. Ef barn fær alltaf snjalltæki í hendurnar þegar það sýnir erfiða hegðun þá nær barn ekki að læra á tilfinningar sínar og nær þá ekki að læra róa sig sjálft (Heilsuvera.is, e.d).